Sagan um manninn og tjakkinn!

Hún er góð sagan af manninum sem ætlaði að fá lánaðan tjakkinn hjá bóndanum á sveitabænum.

En það var þannig að það var maður á ferð í bíl sínum eftir fáförnum sveitavegi þegar það sprakk á einu dekki undir bílnum. Nú þegar maðurinn ætlaði að skipta um dekk kom í ljós að engin tjakkur var í bílnum. Nú voru góð ráð dýr en í fjarska sá maðurinn sveitabæ og hann ákvað að ganga þangað til þess að biðja bóndann á bænum að lána sér tjakk.

Þetta var um það bil fimmtán mínútna gangur og maðurinn gekk af stað.

Eftir að hann hóf gönguna heim að bænum fór hann að brjóta heilan um hvernig viðtökurnar yrði hjá þessum bónda sem þarna bjó. Hvað til dæmis ef hann hataði þetta andskotans Reykjavíkurpakk og það kæmi ekki til greina að hjálpa því á nokkurn hátt? Svo væri líka til í dæminu að hann væri fæddur ruddi og lánaði engum sín verkfæri og segði mönnum bara að fara til fjandans sem bæðu um slíkt. Svo hafði hann líka heyrt að þessir bændur væru á hausnum fjárhagslega og tækju okurverð fyrir allt sem þeir gerðu fyrir aðra, enda sæist það best á verðinu á lambakjötinu um þessar mundir. Og kannski ætti hann ekki tjakk, eða vildi alla vega ekki lána hann.

Þessar og aðrar hugsanaflækjur veltust um í kollinum á okkar manni þegar hann gekk heim að bænum. Og hann var orðin eiginlega alveg kolsjóðandi vitlaus í skapinu þegar hann loks náði heim á hlað á þessum sveitabæ og bankaði hraustlega á útihurðina. Og ekki lagaði það ástandið þegar þessi bóndadurgur var ekkert að flýta sér til dyra þá var suðan komin á alvarlegt stig í okkar manni þegar hann loksins opnaði. Hann horfði á þennan bónda sem ég heyrði um seinna að væri orðlagður fyrir greiðvirkni og gæði og hreytti út úr sér. „Taktu þennan andskotans tjakk og troddu honum upp í rassgatið á þér.“

Leave a comment