Besta ráðið til að ráða við kvíða, er að þjálfa sig í þakklæti. Halda þakklætisdagbók. Fara í þakklætisgöngu. Anda að sér þakklæti. Anda að sér nýtt og ferskt, anda frá sér kvíða og streituuuuu …. uuu…. u….uuuuuuu
Séra Hildur Eir Bolladóttir setti fram áhugavert sjónarmið á kvíða í stöðufærslu sína á Facebook 27.11.24 og ég fæ að setja hér til að minna sjálfa mig á 🙂

Ég fæ oft þá spurningu frá fólki sem spjallar við mig í sálgæslunni hvernig best sé að lifa með kvíða. Fólk spyr af því að það veit að kvíðinn hefur verið minn förunautur frá því ég var bara unglingur. Munurinn á kvíða og sorg er að í sorginni er pláss fyrir jákvæðar tilfinningar á meðan kvíðinn er miklu frekari og yfirgangssamari en sorgin og vill fá alla athyglina, alltaf. Þess vegna er mikilvægast af öllu að komast yfir það að vera hræddur við kvíðann. Að geta sagt við kvíðann eins og skáldið við dauðann “kom þú sæll þá þú vilt” er sennilega eitt mikilvægasta skrefið í þeirri vegferð að læra að lifa með honum. Ég hef ekki lifað einn kvíðalausan dag í sennilega svona þrjátíu og þrjú ár en ég er ekki lengur hrædd við hann. Þess vegna er líf mitt ekki kvíði heldur líf með kvíða ásamt allskonar öðrum tilfinningum og upplifunum, jákvæðum og neikvæðum. Að lifa með kvíða er að leyfa honum að koma og ganga yfir eins og aldan í fjörunni eða hríðar við fæðingu. Kvíðinn er ekkert hættulegur einn og sér, hann er bara hundleiðinlegur og þreytandi en ef maður gefur honum ekki meira vægi en það þá er maður farinn að lifa fyrir ofan hann en ekki undir honum. Ég veit að það er hægara að segja en gera en ef þú skoðar allt sem þú hefur komist í gegnum í lífinu þá sérðu fljótt að þú hefur gert svo ótal margt sem þú hefðir að óreyndu aldrei talið þig geta unnið með eða unnir úr. Þú getur líka lifað með kvíða, ég er alveg viss um það”
Frá Brynhildi Jónsdóttur sálfræðingi Alzheimers samtakanna, kom þessi stórkostlega setning um kvíða:
Reyna að ofhugsa ekki og andlegur undirbúningur í formi kvíða, skilar ekki léttari framtíð!
