Hvað er betra en að eiga
innri gleði, innri frið
Guð minn þá er gott að mega
ganga út í sólskinið
Pálmi Eyjólfsson var afi minn og var minn besti vinur.

Pálmi Eyjólfsson, fv. sýslufulltrúi á Hvolsvelli, lést á sjúkrahúsi í Austurríki 12. október sl., 85 ára að aldri. Pálmi var fæddur á Undralandi í Reykjavík 22. júlí 1920. Hann var sonur Eyjólfs Gíslasonar innheimtumanns og Guðríðar Magnúsdóttur rjómabústýru. Pálmi missti ungur móður sína og ólst upp í Neðri Dal undir Eyjafjöllum. Hann stundaði nám við Héraðsskólann að Laugarvatni.
Ungur starfaði Pálmi við stíflugerð við Markarfljót, sjómennsku o.fl. Hann flutti á Hvolsvöll árið 1941 og hann og kona hans, Margrét Jóna Ísleifsdóttir, voru ein af frumbyggjum Hvolsvallar. Pálmi var verslunarstjóri hjá Kaupfélagi Hallgeirseyjar, síðar Kaupfélagi Rangæinga, en lengst af fulltrúi hjá sýslumanni Rangæinga eða í 44 ár. Pálmi var virkur þátttakandi í félagsstafi í Rangárþingi. Hann var m.a. formaður sóknarnefndar Stórólfshvolskirkju, formaður stjórnar Héraðsbókasafns Rangæinga, formaður stjórnar Kaupfélags Rangæinga, sat í sýslunefnd Rangæinga og var í stjórn Byggðasafnsins í Skógum. Hann var mjög áhugasamur um framgang ýmissa hagsmunamála í Rangárþingi. Pálmi var einn af stofnendum Rotaryklúbbs Rangæinga, hann var meðlimur klúbbsins til dauðadags og sæmdur æðstu viðurkenningu Rotarymanna, Paul Harris-heiðursmerkinu. Hann var auk þess sæmdur riddarakrossi hinnar Íslensku fálkaorðu. Pálmi var vel hagmæltur og gaf út bókina Í ljósaskiptunum árið 2000. Fjöldi greina og ljóða eftir hann hafa birst í blöðum og tímaritum.
Margrét og Pálmi bjuggu allan sinn búskap á Hvolsvelli. Þau eignuðust þrjú börn, þau Guðríði, Ingibjörgu og Ísólf Gylfa.

