Við verðum öll fyrir mótlæti og áföllum í lífinu, en þó mis miklum og mis stórum. Áföll geta verið það stór að þau hafi áhrif á heilastarfsemi og móti okkur fyrir lífstíð, taugakerfið er í uppnámi, hefur áhrif á svefn, drauma, samskipti, við verðum viðkvæmari eða örari o.s.frv.

Áfallaþroski er ferli. Einn hluti af því ferli er sorg, að þurfa að takast á við nýjan raunveruleika, viðurkenna hvað gerðist, læra að lifa með því og smátt og smátt, hægt og rólega… fikra sig áfram að nýrri heimsmynd. Enn það skiptir líka máli hvernig við vinnur úr því sem gerist og áföll hafa ekki sömu áhrif á alla og við bregðumst einnig mismunandi við þeim. Við getum haft áhrif á framvinduna ef við erum tilbúin að vinna úr hlutum og það er áfallaþroski ef við náum að vinna með þetta þannig að við þroskumst, sjáum nýjar leiðir, vöxum og frekar skánum heldur enn hitt, hægt og seigfljótandi, ef svo má segja. Það getur oft verið gott að leita sér ráðgjafar, vera ekki einn með sínar sorgir. Leita til náinna vina eða ættingja, eða leita til fagaðila.
Úrvinnsla með jákvæðum hætti þýðir að þú lærir og sérð, að þú nærð að lifa áfallið af. Þú hafir lært eitthvað. Kannski orðið betri manneskja eða getur gefið af þér til annarra síðar í svipuðum sporum, eða reynt að hafa áhrif á samfélagið til góðs, jafnvel getur þú haft áhrif inn í samfélagið. Svona gáruáhrif eins og þegar dropi fellur í lygna tjörn.
Enn auðvitað er tómt mál að tala um svona hluti fyrr en ákveðinn tími er liðinn og þú farin að sjá út úr að lifa dagana af.
Allur stuðningur og skilningur hjálpar og er lykilatriði. Eykur líkur á því að hægt sé að lifa auðveldar með sárunum og þótt örin sé eftir á sálinni eða á líkamanum, þá sé samt hægt að sjá aftur að lífið getur verið á köflum harla gott. Jafnvel getur fólk fyllst þakklæti á slíkum stundum, fyrir alla sem aðstoða, sem hvetja, sem styðja, fyrir samfélagið, fyrir það góða. Þetta þakklæti og ferlið ef vel lukkast til, getur þýtt að löngu síðar sé hægt að líta yfir farinn veg og sjá að jú, eitthvað jákvætt leiddi áfallið af sér, kynntist einhverri nýrri hlið á lífinu, nýju fólki, hefðir ekki kynnst einhverju annars (styðjandi samfélagi, nýju fólki, nýjum úrræðum), að þú náir einhvers konar sátt og öðlist öðruvísi þakklæti fyrir lífið og sjáir að jafnvel hafi einhverjir lent í verra. Ekki vera feimin að leita til vinar, ættingja, einhvers sem þú treystir, og til fagaðila. Það hafa fleirri enn þú gengið í gegnum svipað. Að tjá sig, hjálpar með sárin. Þú sérð líka fleirri fleti, þú léttir á sálinni, færð lánaða dómgreind, linar þjáningar með því að ryfja upp, tjá sig, leita huggunar.

Úrvinnsla tekur tíma, það hjálpar að tala um hlutina, fá viðurkenningu á hvað gerðist, að túlka og skilja hvað gerðist og öðlast aftur tilfinningu fyrir eigin virði og jafnvel sjá einhvern tilgang með viðburðinum eða einhverja merkingu. Með því að tala um hlutina verða áföllin einhvern veginn viðráðanlegri, afleiðingarnar fyrirsjáanlegri og betri skilningur á því sem gerðist. Það er því mjög mikilvægt að eiga samveru með öðrum í svipuðum sporum, sem þekkja til, þá sem hafa reynslu o.s.frv. Því er mikilvægt t.d. að þegar samfélög verða fyrir áföllum að skapa aðstæður fyrir að koma saman og oft.
Stundum kallar áföll og mótlæti á endurskilgreiningur. Hvernig lífi vil ég lifa? Hvað skiptir mig raunverulega máli? Hvaða fólk vil ég raunverulega deila lífinu mínu með? Hver er ég? Hvernig passa ég inn í heiminn? Ný bjargráð, ný verkfæri verða til og svo er svo gott að rifja upp bæði ein/einn og með öðrum minningarnar, þær góðu og þær erfiðu, jafnvel brosa. Það leiðir til betri líðan, betri andlegs jafnvægis og getur styrkt bönd og ný tengsl verða til. Það má hlægja, það má líða vel, sorgin er eins og öldur, kemur og fer, mis kröftugt, tekur yfir eða minnir á.
Einstaklingur sem upplifir áfallaþroska getur sagt eftir ákveðinn tíma, að hann upplifi meiri persónulegan styrk, hefur aukna sjálfstrú og eflt eigin seiglu, veist betur hvað þú getur og býrð að því að vita að lífið hefur margar hliðar og þú hefur farið í gegnum margt misjafnt, komist í gegnum það, styrkt, þroskast, lært. Jafnvel dottið, enn staðið upp aftur og með reynslu, sterkari sjálfsmynd og með breytta lífssýn. Eiga auðveldar með að sjá hvað skiptir þá máli, setja mörk, styrkja tengslin við þá sem raunverulega skipta þá máli og hafa jafnvel farið að gera eitthvað nýtt, prófa nýja íþrótt, gera sumt af meiri alvöru, lært eitthvað nýtt eða tekið upp nýtt áhugamál, sem sagt – gert eitthvað sem hefði sennilega annars aldrei komið til.
Sumir upplifa sig einhvern veginn sannari, dýpri, betri útgáfu af sjálfum sér. Jafnvel opnari, og upplifir meiri samkennd. Getur skapað meiri auðmýkt. Getut gefið raunsærra sónarhorn og upplifun að við höfum ekki stjórn á öllu, heimurinn er hættulegur og ófyrirsáanlegur og við erum hvorki ódauðleg né ósigrandi.
Má ég bæta við, að þetta hús hér á myndinni – sem er yfir 100 ára gamalt, minnir mig á .. að þú getur verið með stíl, þinn eigin stíl og verið smart þótt farið sé að falla á :-). Þetta hús er að finna á safni í Noregi, Sörreborg, Throndheim

Í framhaldi af þessu tala margir um að taka betur eftir og meta litlu hversdagslegu hlutina betur, sem þeir tóku hugsanlega ekki eftir áður eða fannst ómerkilegir.

Heimildir:
Ramos, C., Leal, I., Costa, P. A., Tapadinhas, A. R. og Tedeschi, R. G. (2018). An item-level analysis of the
posttraumatic stress disorder checklist and the posttraumatic growth inventory and its associations with challenge to core beliefs and rumination. Frontiers in Psychology, 9(1), 02346. https://doi.org/10.3389/fpsyg.2018.02346
Tedeschi, R. G. o g Calhoun, L. G. (2008). Beyond the concept of recovery: Growth and the experience of loss.Death Studies, 32(1), 27–39. https://doi.org/10.1080/07481180701741251
Þórdís Lilja Ævarsdóttir og Ingibjörg Kaldalóns (2023) Kulnun Grunnskólakennara. Stuðningur í starfsumhverfi og áfallaþroski. Netla. Veftímarit um uppeldi og menntun.
https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S1008127522000207?via%3Dihub
+

