Við erum stödd í afmælinu þínu.
Þú ert í flunkunýjum kjól keyptum á Ali Baba og rétt náði innum bréfalúguna fyrir kvöldið.
“Ojjj ég er eins og illa vafin rúllupylsa í þessari spjör. Þarf að halda inni maganum á öllum myndum í kvöld”
“Og þessir baugar. Guði sé lof fyrir filtera.”
“Hvað er að frétta af bingóinu á höndunum… af hverju var ég ekki duglegri í ræktinni á síðasta ári??”
Þessir hryðjuverkagaurar fengu að grassera í kollinum áður en þú skundaðir í veislusalinn.
Það er komin ölvun í selskapinn.
Stuð og stemmning.
Fjör á fjórtán.
Gin og tónik í vélindanu.
Þröngir leðurjakkar.
Bleiserar og brilljantín.
Gunna vinkona lemur teskeið í hvítvínsglas úr IKEA.
Það er lækkað í steríógræjunni sem gubbar út Helga Björns og pöbbum sem fella ekki tár.
Það slær þögn á mannskapinn.
“Ég vil skála hér í kvöld fyrir bestu vinkonu minni í gegnum þrjátíu ár. Hún hefur alltaf verið til staðar fyrir mig. Þegar ég á slæma daga lætur mér alltaf líða eins og prinsessunni á bauninni Hún hlustar á mig þegar ég kvarta og kveina. Hún samgleðst mér þegar mér gengur vel. Gagnrýnir mig aldrei þó ég geri glappaskot.
Skál fyrir bestu vinkonu sem til er. Hún lengi lifi.
Og svo koma öll fjögur Húrrahrópin frá kórnum áður en meiri mjöður vætir kverkarnar.
Það man enginn eftir kviðvöðvunum þínum.
Öllum er skítsama um hlutfall fitu og vöðva í líkama þínum.
Ást móður þinnar er ekki háð því hvað þú getur gert margar armbeygjur.
Vinkona þín elskar þig hvort sem það flettast dellur yfir sokkabuxnastrenginn þinn.
Umhyggja föður þíns fyrir þér er ekki fólgin í að vera í réttri buxnastærð.
Börnunum þínum er drull um hvað þú ert þung.
Fólk man eftir þér útfrá hvernig því líður í návist þinni.
Þyngdin á útgeisluninni þinni.
Stærð persónuleikans þíns.
Ummálið á umhyggjunni þinni.
Kílógrömmin á ástúð þinni.
Fólk veltir ekki fyrir sér hversu mikið pláss þú tekur í rýminu.
Heldur hversu mikið pláss þú átt í huga þeirra.
Ómakleg gagnrýni og andúð í eigin garð rífur niður sjálfið, svekkir sjálfsmyndina og mölbrýtur sjálfstraustið.
Næst þegar þú ætlar að leyfa sjálfseyðingarbálinu að loga glatt í þurrum hríslum í hausnum hugsaðu frekar um hvað yrði sagt um þig í ræðu í veislunni þinni.
Þú ert meira en skelin.
(Tekið frá síðu Röggu Nagla)