Seigla, er að halda áfram þótt á móti blási. Seigla er það sama og þrautseigja (resilience).
Seiglan þín er þinn baráttuvilji, jafnvel baráttugleði. Hvað ertu tilbúin að leggja á þig og fyrir hvað? Studnum þarf nú bara seiglu til að komast í gegnum hversdaginn. Hvað þá í mótlæti og áföllum. Hversu mikla trú hefur þú á að þú lendir á löppunum?
Við fæðumst með mis mikla seiglu. En við getum aukið eigin seiglu, þjálfum hana með lífsreynslunni, getum fengið lánaða seiglu frá öðrum, fengið hugmyndir að láni og lært af árangri annarra, fylgt fyrirmyndum, orðið fyrir innblæstri og þannig mætti haldið lengi áfram.
Seigla er að leggja sig fram um að vera bjartsýn/nn og jákvæður, sýna kjark, bíta stundum á jaxlinn og halda áfram. Gera það sem þarf til að færa sig nær ljósinu, til að sjá fyrir endann á göngunum. Sjá ný tækifæri, nýjar leiðir.
Stundum er þó einmitt seigla að gefast upp. Hefja nýtt upphaf. Sýna sveigjanleika. Stundum þarf líka fórnir.
Það er líka seigla að geta leitað til annarra og taka ráðum.
Það er seigla að eig gott með að kynnast nýju fólki, þora að stíga skrefið, sýna frumkvæði.
Það er seigla að halda áfram að fara á fætur á morgnanna, búa um rúmið, halda rútínu, þótt kröftuglega sé blásið á móti. Oft er einmitt seiglan í litlu hlutunum.
Svo skapast ný framtíðarsýn og þar með styrkist seiglan, því þú hefur sýn, sem er bjart-sýn 🙂
Svo er að nýta sér allskonar skipulag, gera verkefnalista, áætlanir, haka svo við, fylgjast með árangri. Setja sér viðráðanleg markmið.
Áfram veginn, ekki gefast upp, þú veist aldrei hvað er bak við næsta högg!
Hægt er að taka seiglupróf til að sjá hvaða tegund seiglu maður notar mest og hvaða seiglu minnst, til að auka sjálfsþekkingu og fá hugmyndir að styrkingu.
